Afhverju þarf að gera við barnatennur?

Barnatannsettið samanstendur af tuttugu barnatönnum, tíu í efri kjálka og tíu í neðri kjálka. Uppkoma þeirra hefst almennt í kringum 6 mánaða aldurinn og lýkur í kringum tveggja og hálfs árs eða þriggja ára aldurinn. Almennt eru það miðframtennur í neðri góm sem birtast fyrst, en síðustu tennurnar til að birtast eru yfirleitt aftari barnajaxlar í efri kjálka.

Mynd: 5 ára strákur með allar sínar barnatennur

HVERNIG MYNDAST TANNÁTA (TANNSKEMMDIR)?

Tannáta er skilgreind sem niðurbrot tanna af völdum baktería í munni. Bakteríurnar nota sykur frá mat og drykk til að mynda sýru, sem eyðileggur glerung tanna og tannbeinið undir honum. Bakteríurnar lifa í þunnu lagi á yfirborði tanna, sem kallast tannsýkla. Ef tannsýkla safnast upp í kringum tennurnar, og ef bakteríurnar í tannsýklunni hafa aðgang að mat eða drykk (aðallega súkróa), getur tannáta þróast.

„EARLY CHILDHOOD CARIES“

Tannáta sem myndast fyrir þriggja ára aldur barns hefur á fræðimáli verið kölluð early childhood caries (ECC). ECC er ansi algengt ástand og tengist langoftast pelanotkun barna. Sykraðir drykkir, svo sem safar, gos eða mjólk (líka brjóstamjólk), í bland við laka tannhirðu, eru aðalorsakaþættirnir fyrir ECC. Tannátan þróast yfirleitt á framtönnum efri góms, og á tyggiflötum fremri barnajaxla í báðum gómum.

3 ára stelpa, sem svaf með sveskjudjús á pela á nóttunni. Foreldrarnir gerðu sér ekki grein fyrir að náttúrulegur sveskjudjús getur valdið alvarlegri tannátu.

FORVARNIR GEGN TANNÁTU

Um leið og fyrsta tönnin birtist í munni barnsins er tímabært að hefja tannburstun með flúortannkremi til að koma í veg fyrir þróun tannátu. Eftir því sem barnið verður eldra því þéttari verða tennurnar (minna bil á milli þeirra) og þróun tannátu á milli barnajaxla (öftustu tveggja barnatannanna) verður æ algengari. Þá er tímabært að bæta við tannþræðinum, til að hreinsa bilin á milli tannanna og koma þannig í veg fyrir þróun tannátu á þeim tannflötum. Auk góðrar tannhirðu þá skipta fæðuvenjur gríðarlega miklu máli þegar kemur að þróun tannátu. Mikilvægt er að takmarka eins og hægt er neyslu sætra og klístraðra fæðu-tegunda og reyna að halda sig við reglulega matmálstíma (forðast nart á milli mála). Börn eiga aldrei að leggjast til hvílu með pela fullan af sykruðum drykkjum eða mjólk, eða með hverskyns mat. Það sama á við um mat eða drykk yfir nóttina. Ef barnið þarf að fá pela fyrir eða yfir nóttina ætti pelinn einungis að innihalda vatn. Ef barnið notar snuð, skal aldrei væta snuðið með sykruðum vökva eða fæðu, af sömu ástæðum og nefndar hafa verið að ofan.

FORVARNIR GEGN TANNÁTU

Þróun tannáu í barnatönnum getur haft alvarleg áhrif á heilsu og velferð barna, og einnig fyrir fullorðinstennur, sem eru að þroskast inni í kjálkabeinunum. Ef ekkert er að gert munu skemmdirnar stækka og að lokum ná inn í taugahol tannarinnar, sem inniheldur taugar hennar og æðar. Stórar skemmdir, bæði þær sem ná inn í taugaholið og þær sem gera það ekki, geta valdið gríðarlegum sársauka (tannpínu), bæði í og í kringum skemmdu tönnina. Slíkur sársauki getur truflað daglegar rútínur barnsins, s.s. svefn, einbeitingu í skóla og/eða leikskóla, og nám. Tannpína getur enn frekar hindrað barnið í að borða og drekka eðlilega og rannsóknir hafa sýnt að ómeðhöndlaðar tannskemmdir geti leitt til vannæringar og dregið úr hæðar-og þyngdarvexti. Ef tannskemmdir ná inn í taugahol tannar og engin meðferð er veitt, þróast að lokum sýking, sem dreifir sér í og í kringum rót tannarinnar. Langvarandi sýking við barnatönn, getur valdið tannmyndunargalla í tilsvarandi fullorðinstönn, sem kallast þá á fræðimáli Turner tooth. Slík tönn getur orðið svo illa á sig komin að nauðsynlegt verður að fjarlægja hana. Að auki getur sýkingin dreift sér frá tönninni og til annarra vefja, þar á meðal heila og æða, þar sem hún getur valdið heila-og blóðsýkingu. Slíkt ástand getur verið lífshættulegt.

MEÐFERÐ

Meðhöndlun tannátu í barnatönnum er jafnmikilvæg og meðhöndlun tannátu í fullorðins-tönnum. Séu skemmdirnar ekki of stórar er yfirleitt hægt að gera við þær með tannlitum plastfyllingum. Fyrir stærri skemmdir gætu stálkrónur verið öruggari kostur fyrir endingu tannarinnar og ólíklegra að grípa þurfi til meðhöndlunar á þeirri tönn síðar. Í alvarlegri tilfellum, gæti verið þörf á að fjarlægja tennurnar, annaðhvort vegna sýkingar eða vegna óhóflegs niðurbrots sem útilokar að unnt sé að byggja tönnina upp aftur. Í öllum tilfellum reynir tannlæknirinn að gera við tennur í stað þess að fjarlægja þær, ef hægt er, og því fyrr sem tannskemmdirnar uppgötvast því meiri líkur eru á að hægt sé að halda tönnunum.

MEÐFERÐ Í SVÆFINGU

Þegar meðferðar er þörf fyrir ung börn, börn sem eru kvíðin eða mjög hrædd, eða ef um umfangsmikla meðferðarþörf er að ræða, getur verið æskilegt fyrir barnið (og foreldrana) að meðferðin fari fram í svæfingu. Ung börn skortir yfirleitt líkamlega og andlega hæfni til að geta tekið þátt í hefðbundinni tannlæknameðferð í tannlæknastól. Auk þess geta sumar tann-meðferðir verið langar og þreytandi, sem gerir þær á sama tíma álagsmiklar og erfiðar fyrir barnið, séu þær ekki framkvæmdar í svæfingu. Tíðni alvarlegra fylgikvilla í tengslum við tannmeðferðir í svæfingu er mjög lág þegar meðferðin er veitt í sjúkrahúsumhverfi. Svæfing er líklega öruggari en djúp slæving, sem stundum er veitt á tannlæknastofum, og ætti því að vera sá kostur sem valinn er þegar réttar aðstæður eru til staðar. Margar rannsóknir sýna að aðeins ein neikvæð upplifun á tannlækna-stofunni sé næg til að valda tannlæknakvíða/fælni, sem getur svo valdið miklum vandamálum síðar á ævi barnsins. Því er nauðsynlegt að koma í veg fyrir slíka óheppilega upplifun.

MIKILVÆGI REGLULEGRA TANNLÆKNAHEIMSÓKNA

Barnatennur eru mikilvægar á marga vegu. Eitt af hlutverkum þeirra er að varðveita pláss fyrir fullorðinstennurnar. Ef barnatennurnar tapast of snemma, getur plássið fyrir fullorðins-tennurnar orðið of lítið, en það getur aftur kallað á umfangsmikla tannréttingameðferð síðar. Tanntap getur einnig haft áhrif á hæfni barnsins til að tala og gert tyggingu erfiða. Af þeim sökum er gríðarlega mikilvægt að reyna að halda barnatönnunum eins heilbrigðum og mögulegt er þar til þær detta af sjálfsdáðum á þeim tíma sem þær eiga eðlilega að detta á. Þess vegna er mikilvægt að öll börn fari reglulega til tannlæknis, minnst einu sinni á ári, að minnsta kosti frá þriggja ára aldri, svo hægt sé að uppgötva í tíma hvers kyns tannvandamál (séu þau til staðar) og veita viðeigandi meðferð við þeim.

+354 561 3130

puti@puti.is

Vesturhús Glæsibæ
Álfheimar 74
104 Reykjavík

Mán–Fim 8:00–16:00
Fös- 8:00 – 14:00