Hvenær er mælt með fyrstu heimsókn til tannlæknis?

Á Íslandi er gert ráð fyrir að fyrstu upplýsingar um tennur og tannhirðu barna berist til foreldra í hinu skipulagða ungbarnaeftirliti, sem foreldrum er ætlað að mæta í frá fyrstu dögum barnsins. Því er almennt ekki talin þörf á að koma með börn til tannlæknis fyrr en um það leyti sem allar barnatennurnar eru komnar í munninn, eða á milli 2 og 3 ára aldurs. Ef hinsvegar foreldrar hafa áhyggjur af einhverju, sem tengist tann-og/eða munnheilsu, eða ef börn verða fyrir áverka á tennur eða munnsvæði, þá er öllum börnum frjálst að koma til tannlæknis allt frá fæðingu.

 

Hvernig viljum við að fyrsta upplifun barnsins hjá tannlækningum sé?

Við leggjum mikið upp úr að fyrsta tannlæknaheimsókn allra barna verði að gleðilegri minningu, sem rifja má upp síðar. Tannlæknaheimsókn á að vera athöfn í lífi barna, sem þau geta hlakkað til, og jafnvel spjallað um við fjölskyldu sína og vini á jákvæðan hátt þegar heim er komið. Við munum því leggja allt í sölurnar til að svo verði. Rannsóknir sýna án efa að verði fyrstu heimsóknir barnsins ánægjulegar, minnka líkurnar á þróun tannlæknakvíða og/eða -fælni síðar á ævinni gríðarlega.

 

Hvað ef barnið þarf á meðferð að halda?

Ef í ljós kemur að meðferðar er þörf, t.d. af völdum tannskemmda og/eða glerungsgalla, þá er mikilvægt að komast að því hvaða aðferð sé best til að viðhalda samvinnu og vellíðan út alla meðferðina. Við höfum úr nokkrum aðferðum að velja, en þær helstu eru þessar:

  • Hefðbundin meðferð í tannlæknastól
  • Atferlismeðferð og aðlögun
  • Glaðloft
  • Svæfing

Mikilvægt er að finna þá leið sem hentar hverju barni best og er það rætt vel og vandlega við foreldra/forráðamenn barnsins og ákveðið í samráði við þá.

 

Mikilvægt að hafa í huga 😊

Áður en barn kemur í sína fyrstu heimsókn til tannlæknis er gott fyrir foreldra/forráðamenn að hafa eftirfarandi í huga:

  • Verið jákvæð. Börnin læra það sem fyrir þeim er haft 😊
  • Foreldri með tannlæknahræðslu getur óvart „smitað“ hræðslunni til barnsins ef það gáir ekki að sér. Börn skynja meira en margur heldur og óheppileg orð eða umræður fullorðinna um erfiða eigin reynslu getur alið á hræðslu hjá barninu.
  • Aldrei nota heimsókn til tannlæknis sem hótun eða refsingu!

Dæmi: Setning eins og þessi: „Ef þú burstar ekki tennurnar þá verðum við bara að fara til tannlæknis“ …inniheldur vísbendingar um að tannlæknaheimsóknir séu bara alls ekkert skemmtilegar. Það mun ekki hjálpa til þegar kemur svo að tannlæknaheimsókninni.

  • Það getur verið varhugavert að lofa stórum verðlaunum standi barnið sig vel hjá tannlækninum. Slíkt skapar mikla pressu og álag fyrir barnið, sem ekki er víst að barnið standi undir og ef ekki tekst til sem skyldi þá verða vonbrigðin mikil. Í kjölfarið er ólíklegt að barnið sé viljugt til að heimsækja tannlækninn aftur.

+354 561 3130

puti@puti.is

Vesturhús Glæsibæ
Álfheimar 74
104 Reykjavík

Mán–Fim 8:00–16:00
Fös- 8:00 – 14:00