Tannáverkar eru mun algengari en trúa mætti í fyrstu. Víða í nágrannalöndum okkar hefur verið sýnt fram á að um það bil fjórðungur barna skaði tennur sínar, annaðhvort barna-eða fullorðinstennur, eða jafnvel hvoru tveggja.

Almennt skal hafa eftirfarandi í huga þegar tannslys ber að garði:

  • Halda ró sinni! Skaðar í andliti líta einatt verr út en þeir í raun og veru eru.
  • Fylgjast með meðvitund barnsins. Höfuðhögg geta haft aðrar og lúmskari afleiðingar en virðist í fyrstu. Sljóleiki, ógleði, syfja, óráð, sár höfuðverkur og sjóntruflanir eru merki um að eitthvað alvarlegt geti amað að. Leita skal til læknis strax ef slík einkenni koma fram.
  • Athuga hvort tönn vanti. Ef tönn virðist vanta getur tvennt hafa átt sér stað; tönnin gæti hafa þrýst það langt inn í tannhold og bein að hún sést ekki lengur, eða hún gæti hafa dottið úr í heilu lagi. Sé um síðara tilfellið að ræða er mikilvægt að athuga hvort tönnin finnist á svæðinu þar sem áverkinn átti sér stað.
  • Bjóða barninu volgan vatnssopa, ef skaðinn er ekki þeim mun alvarlegri. Fái barnið sér vatnssopa eða skoli munninn varlega er auðveldara að sjá hvaðan blæðir, gera sér grein fyrir áverkunum og meta hvort tennur hafi orðið fyrir skaða eða hvort skaðinn sé aðallega mjúkvefjaskaði

 

Rétt er að fá álit tannlæknis á öllum áverkum sem verða á tennur, sama hversu smávægilegir sem þeir kunna að vera. Með réttum viðbrögðum strax eftir skaðann má koma í veg fyrir þann óbætanlega skaða sem tannmissir er.

Áverkar á barnatennur

Brot, los og/eða færslur barnatanna kalla á heimsókn til tannlæknis. Best er að hringja og panta tíma sem allra fyrst, en yfirleitt eru þetta skaðar sem mega bíða meðferðar í fáeinar klukkustundir.

Úrslegna barnatönn skal aldrei setja upp í tannstæði sitt aftur. Sé það gert er möguleiki á að skaða fullorðinstönnina, sem er að myndast inni í beininu. Þó skal leita til tannlæknis og gott er þá að hafa úrslegnu tönnina með í för. Mjög mikilvægt er að ekki sé um fullorðinstönn að ræða, því meðferð barna-og fullorðinstanna er gjörólík.

Brot, los og/eða færslur fullorðinstanna kalla á heimsókn til tannlæknis. Best er að hringja og panta tíma sem allra fyrst, en yfirleitt eru þetta skaðar sem mega bíða meðferðar í fáeinar klukkustundir.

Úrslegna fullorðinstönn er gríðarlega mikilvægt að finna. Ef hún finnst skal taka hana upp á krónu hennar, ekki á rótinni. Ef mikill sandur eða óhreinindi eru á henni má sleikja hana hreina og koma henni strax aftur í sæti sitt í munninum. Ef það gengur eru góðar líkur á að tönnin komi til með að festast aftur og skiptir það miklu máli fyrir horfur tannarinnar hversu langur tími líður frá því að tönnin dettur úr og þangað til hún kemst í sæti sitt í tanngarðinum aftur. Takist þetta skal tönninni haldið á sínum stað á leiðinni til tannlæknis. Takist hinsvegar ekki að koma tönninni á sinn stað, skal hún geymd í raka, helst í saltvatni (t.d. linsuvökva), eða í mjólk (helst nýmjólk). Ekki er ráðlegt að setja tönnina í vatn. Síðan skal farið cjkeins fljótt og unnt er til tannlæknis, sem vonandi getur komið tönninni á sinn stað sem allra fyrst.

+354 561 3130

puti@puti.is

Vesturhús Glæsibæ
Álfheimar 74
104 Reykjavík

Mán–Fim 8:00–16:00
Fös- 8:00 – 14:00