Tanntaka barna

Margir foreldrar bíða spenntir eftir að fyrsta tönn barnsins birtist í munni. Fyrsta barnatönnin birtist að meðaltali við 7-8 mánaða aldur en getur þó látið sjá sig allt frá 4 mánaða aldri og upp í 12 mánaða aldur. Allt þar á milli telst vera eðlilegt frávik. Oftast eru það neðri góms framtennur sem birtast fyrst, en svo birtast tennurnar hver af annarri þar til þær verða 20 talsins, við ca tveggja og hálfs árs aldurinn.

 

Einkenni við tanntöku barna

Tanntaka barna  getur verið því sem næst einkennalaus, en hún getur einnig valdið barninu óþægindum. Á meðal einkenna sem barnið getur upplifað eru:

  • Aukið munnvatnsflæði (slef)
  • Kláði í gómum
  • Bólgur í gómum
  • Almennur pirringur
  • Minni matarlyst
  • Svefnóróleiki
  • Lítillega hækkaður líkamshiti

Ólíkt því sem margir halda veldur tanntaka hinsvegar ekki háum hita, uppköstum eða niðurgangi. Hafi barnið slík einkenni er líklegast að um bakteríu-eða veirusýkingu sé að ræða. Við tanntöku getur það hjálpað barninu verulega að naga gúmmíhringi sem fást í öllum mögulegum stærðum og gerðum, því það getur dregið úr kláða og pirringi í gómunum.

Tannburstun

Góð tannhirða er mikilvæg strax frá því að fyrsta tönnin kemur upp, en tennur geta skemmst fljótlega eftir uppkomu ef ekki er hirt um þær. Mælt er með að bursta allar tennur í munni að lágmarki tvisvar sinnum á dag, í tvær mínútur í senn, með flúortannkremi. Flúor er okkar besta vörn gegn tannskemmdum og skal flúorstyrkur tannkremsins ákveðinn eftir aldri barnsins. Þannig skulu 0-5 ára börn nota tannkrem með flúorstyrk 1000 ppm F, en 6 ára og eldri skulu nota tannkrem með flúorstyrk 1450 ppm F. Aðeins lítið magn tannkrems er notað á burstann. Fyrir börn 0-3 ára skal nota sem samsvarar ¼ af nögl litla fingurs barnsins, en fyrir 3-5 ára börn er miðaða við magn sem samsvarar allri nögl litla fingurs barnsins. 6 ára og eldri nota svo ca 1 cm af tannkremi á burstann sinn. Eftir að tennur hafa verið burstaðar vel og vandlega er best að skyrpa restinni af tannkreminu í vaskinn, en ekki skola munninn á eftir. Með því móti má ná fram hámarksáhrifum flúorsins og hámarksstyrkingu tannanna. Aðstoða skal barnið við tannburstun fram til 10 ára aldurs.

 

Tannþráður

Þegar tennur barnsins fara að þéttast og snerting hefur myndast á milli þeirra er æskilegt að venja barnið við að nota tannþráð. Að undanskildnum bitflötum jaxla er algengast að skemmdir myndist á milli tannanna. Á meðan barnatennurnar eru enn í munninum er líklegast að slíkar skemmdir myndist á milli tveggja öftustu barnajaxlanna og því er mikilvægt að reyna að halda þeim tannbilum eins hreinum og hægt er með tannþræði.

+354 561 3130

puti@puti.is

Vesturhús Glæsibæ
Álfheimar 74
104 Reykjavík

Mán–Fim 8:00–16:00
Fös- 8:00 – 14:00