fbpx

Fallegri tennur og betra bros

Fegrunar-tannlækningar

Ekkert klæðir okkur betur en einlægt og fallegt bros. Því miður líða sumir einstaklingar fyrir bros sitt vegna útlits tanna eða tannholds.

Fólk getur jafnvel orðið óþarflega meðvitað um brosið sitt og forðast að brosa með tönnunum. Sem betur fer er það ástand sem ávallt má lagfæra, en leiðirnar til þess geta verið margar og ólíkar.

Fegrunartannlækningar eru breitt meðferðarsvið sem tekur yfir ákaflega margar tannlækningameðferðir sem stundum nægja einar og sér, en í öðrum tilfellum þarf að grípa til blöndu meðferða til að ná tilætluðum árangri.

Hvíttun tanna

Tennur okkar eru mishvítar að upplagi. Eins geta neysluvenjur valdið því að tennur litast, og slit og viðgerðir tanna geta aukið mislitun til muna. Hvíttunarmeðferð tanna í núverandi mynd hefur verið til síðan á níunda áratug síðustu aldar. Hún er skaðlaus tönnum og tannholdi ef rétt er að farið.

Algengasta og oft á tíðum skilvirkasta hvíttunarmeðferðin byggir á notkun sérhannaðra glærra góma sem lýsingarefni er sett í og eigandinn notar samkvæmt fyrirfram ákveðnum leiðbeiningum. Eigandinn getur þá hvíttað tennur sínar eftir þörfum og eigin óskum og haldist tannheilsa góð geta skinnurnar enst í mörg ár eða jafnvel áratugi. Þannig geta skinnur verið frábær fjárfesting í hvítari tönnum til lengri tíma.

Ef skinnur henta ekki er einnig hægt að hvítta tennur með sterkum hvíttunarefnum í tannlæknastól. Nokkrar slíkar heimsóknir gæti þurft til þess að ná viðunandi árangri og oft er þörf á viðhaldsmeðferð síðar ef áhrifin dvína með tímanum.

Nauðsynlegt er að ganga úr skugga um að tannheilsa sé góð áður en hvíttunarmeðferð er hafin. Helstu aukaverkanir tannhvíttunar eru kul og viðkvæmni tanna. Oftast er það vægt eða ekkert, sér í lagi ef veikari efni eru notuð. Það getur hinsvegar verið meira þegar sterkari efni eru notuð. Því er mikilvægt að láta tannlækni greina tannheilsu og sögu til þess að unnt sé að spá fyrir um og meðhöndla slík tilfelli. Rétt er að taka fram að plastfyllingar og postulín í tönnum hvíttast ekki, en yfirleitt er auðvelt að laga lit fyllinga að hvítari tönnum að lokinni lýsingarmeðferð.

Hvíttunarmeðferð er oft notuð til þess að:

 • Hvítta tennur sem þykja gular að upplagi.
 • Hvítta tennur sem hafa gulnað og passa ekki lengur við lit eldri fyllinga eða postulínskróna.
 • Hvítta tennur sem undirbúningsmeðferð fyrir umfangsmeiri tannlækningameðferð.
 • Minnka eða útrýma að fullu ummerkjum um glerungsgalla.
 • Hvítta tennur sem hafa dökknað í kjölfar tannáverka.

Fyrir

Eftir

Tannréttingar

Mörg umkvörtunarefni tengd brosi má leysa með tannréttingum. Tannréttingar henta fólki á öllum aldri og hafa framfarir í tannréttingum á undanförnum áratugum verið gríðarlegar. Tannréttingar í dag eru ekki eingöngu bundnar við hefðbundnar spangir líkt og áður var, heldur má leysa sum vandamál með glærum tannréttingarskinnum.

Skinnuréttingar henta almennt best við afmarkaðar tannréttingar af ýmsum toga, meðal annars til að bæta útlit svo sem með að loka litlum bilum eða rétta skakkar framtennur. Skinnurnar eru lítið áberandi og hafa aukið til muna ánægju og viðhorf fólks til tannréttingarmeðferðar.

Tannlæknar með  viðbótarmenntun í meðferð með tannréttingarskinnum geta veitt slíka meðferð, en mikilvægt er að taka fram að skinnur henta ekki í öllum tilfellum og þarf því að skoða hvert tilfelli gaumgæfilega til að tryggja hverjum og einum sem besta og hagkvæmasta meðferð. Í flóknari tilfellum, þar sem útlitsumkvartanir eru hluti af stærri frávikum í biti eða bitþroska, er því réttast að sérfræðingar í tannréttingum meti og veiti meðferð við vandanum.

Fyrir

Eftir

Breytingar á formi og útliti tanna með plastfyllingum

Plastfyllingarefni eru falleg og fást í öllu litrófi tannanna. Þau eru slitsterk, mislitast seint og með góðri færni má stækka og breyta tönnum með þeim á nær ósýnilegan máta.

Margskonar fegrunarmeðferðir er unnar með plastfyllingarefnum, þar á meðal:

 • Uppbyggingar óvenju lítilla tanna (oft svokallaðar „tapptennur“)
 • Síkkun framtanna vegna slits
 • Lokun bila
 • Viðgerðir á glerungsgöllum
 • Viðbætur tanna til að gera þær sýnilegri
 • Viðgerðir tanna eftir brot og áverka
 • Fegrun á myndunargöllum

Fyrir - Lokun bila

Eftir - Lokun bila

Postulínsskeljar

Postulínsskeljar (einnig kallaðar postulínsskelkrónur) hafa lengi verið taldar með því flottasta sem í boði er á sviði fegrunartannlækninga.

Postulínsskeljum á tennur má líkja við gervineglur á fingur og tær að því leyti að hvorutveggja endurnýjar form og útlit tanna annarsvegar og nagla hinsvegar. Með postulínsskeljum má samtímis breyta formi, lit og stærð tanna, yfirleitt með litlum eða jafnvel engum tannskurði (þ.e. án þess að bora mikið).

Meðferðin hentar vel þegar um stærri frávik í bæði lit og formi er að ræða, og getur hentað til meðferðar á stakri tönn jafnt sem á öllum tönnum í brosinu.

Rétt er að taka fram að postulínsskelkrónur henta fyrst og fremst tönnum sem eru lítið sem ekkert viðgerðar, og breyta fyrst og fremst því svæði tanna sem sést í. Fyrir meira viðgerðar tennur, eða umfangsmeiri breytingar eru postulínskrónur gjarnan æskilegri meðferð.

Fyrir

Eftir

Postulínskrónur

Postulínskrónur flokkast líkt og postulínsskeljar til þess flottasta sem hægt er að bjóða upp á á sviði tannlækninga. Með krónum má breyta formi og lit tanna á dramatískan hátt, en ólíkt postulínsskeljum umlykja krónur tennur að öllu leyti. 

Þannig henta krónur tönnum sem meira eru viðgerðar, og geta styrkt veikar, mikið brotnar eða mikið viðgerðar tennur. Krónur eru oft notaðar til uppbyggingar á mikið slitnum og viðgerðum tannsettum, og geta fegrað, styrkt og stækkað tennur allt í senn.

Fyrir

Eftir

Lýtaaðgerðir á tannholdi

Lýtaaðgerðir á tannholdi geta hentað vel þegar fólk upplifur tennur sínar of stuttar eða tannhold of áberandi í brosinu. Slíkt frávik getur átt við um eina eða fáar tennur, eða í sumum tilfellum allar tennur í brosinu.

Stundum valda frávik í uppkomu tanna því að of mikið tannhold fylgir tönnunum í uppkomu, og getur þá þurft að leiðrétta það með lýtaaðgerðum. Aðrar ástæður geta þó verið fyrir því að mikið sjáist í tannhold, og þarf að greina hvert tilfelli fyrir sig til þess að tryggja rétt meðferðarval.

Fyrir

Eftir

Scroll to Top